Ekki talið að fólk sé í hættu á svæðinu

Skaftárhlaup kom fyrr undan jökli en reiknað var með. Björgunarsveitir hafa verið á ferð á hálendinu við jökulinn í dag til þess að rýma svæðið.

Björgunarsveitir sem sinna hálendisvakt á Fjallabaki voru strax fengnar til að fara inn að Langasjó, að skálanum við Sveinstind og að skálanum við Skælinga til rýmingar.

Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu er vitað um tvo gönguhópa á svæðinu, annar er fimm manna en stærð hins er ekki vituð. Einnig er vitað af stökum göngumönnum á svæðinu. Fundist hefur útbúnaður ferðalanga í skála á svæðinu og unnið er að því að finna úr hvar það fólk heldur sig. Ekki er talið að nokkur göngumaður eða fólk almennt á svæðinu sé í hættu.

Björgunarsveitarmenn eru nú að störfum við þessa rýmingu en einnig er búið er að kalla út björgunarsveitir frá Kirkjubæjarklaustri, úr Skaftártungu, úr Álftaveri og frá Vík. Alls eru því um 30 til 40 björgunarsveitarmenn að störfum.

Fyrri greinÓvissustigi lýst yfir vegna Skaftárhlaups
Næsta greinHrasaði í Bröttufönn