„Ekki spurning hvort, heldur hvenær“

Rangárþing eystra, sem á verslunarbygginguna í miðbæ Hvolsvallar, hefur framlengt leigusamningi við Kaupás um eitt ár, til ársloka 2014.

Að sögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar, sveitarstjóra, hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins verið í sambandi við þrjú fyrirtæki sem tengjast lágverðsverslunum; Kaupfélag Suðurnesja sem rekur m.a. Nettóbúðirnar, Kaupás sem rekur m.a. Krónubúðirnar og Haga sem reka Bónusbúðirnar. Óstofnað verslunarfélag heimamanna og Kaupás hafa sótt um lóðir við Austurveg til verslunarbygginga og Hagar hafa tekið sér umhugsunarfrest fram til vors.

„Hvað sem öðru líður er hreyfing á þessum málum þó að málið sé enn ekki í höfn. Rekstraraðilar lágverðsverslana setja sér ákveðin viðmið um fjölda íbúa á bak við hverja lágverðsverslun sem þeir reka. Við höfum bent á hve miklar breytingar hafa orðið hér á ferðamannastraumi, aukningu umferðar samkvæmt talningu Vegagerðarinnar, Landeyjahöfn hefur hér einnig mikið að segja,“ segir Ísólfur Gylfi og bætir við að sveitarstjórnin sé samtaka um að reyna allt sem í hennar valdi stendur til þess að ná lágverðsverslun á Hvolsvöll.

„Við trúum því að það sé ekki spurning um hvort slík verslun verður opnuð hér, heldur hvenær. Víst er að við erum sannfærð um að hér sé um gott viðskiptatækifæri að ræða,“ segir Ísólfur Gylfi.

Fyrri greinKristinn sigraði örugglega
Næsta greinBirki breiðist út á Krossáraurum