Ekki slegist um óskilahrossin

Tvö óskilahross úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi voru boðin upp hjá Sýslumanninum á Suðurlandi við sýsluskrifstofuna á Selfossi í dag.

Um var að ræða brúnan graðhest, um það bil 7-9 vetra og jarpa meri, um það bil 5-6 vetra. Hrossin hafa verið í óskilum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi síðan í sumar og þrátt fyrir auglýsingar hefur eigandinn ekki gefið sig fram.

Nokkrir áhugasamir hestamenn voru viðstaddir uppboðið en þrátt fyrir það er ekki hægt að segja að slegist hafi verið um hrossin.

Lágmarksboð var fimmþúsund krónur og var graðhesturinn sleginn fyrir þá upphæð. Fjörið var meira þegar kom að því að bjóða upp hryssuna og var hún slegin á heilar sexþúsund krónur.

Fyrri greinValt á hliðina eftir harðan árekstur
Næsta greinHeilsugæslan á Hvolsvelli opin þrjá daga í viku