Ekki sátt um stækkun til suðurs

„Það er ekki vilji til þess hjá okkur að þetta sé til suðurs,“ sagði Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, um hugmyndir að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Eins og greint hefur verið frá er vilji til þess að stækka friðlandið í Þjórsárverum og taka allan Hofsjökul inn í friðlandið auk svæða fyrir sunnan, vestan og norðan núverandi friðland.

„Það hefur aldrei verið sátt um að fara sunnar en þetta er í dag hjá heimamönnum – aldrei,“ sagði Eydís í samtali við mbl.is.

Hreppsnefnd Ásahrepps bókaði á fundi sínum á þriðjudag að nefndin taki undir álit fulltrúa Ásahrepps í Þjórsárveranefndinni og leggst alfarið gegn stækkun friðlands í Þjórsárverum til suðurs, þar til fyrir liggur tímasett, bindandi og undirritað samkomulag milli sveitarfélagsins og ríkisvaldsins, um fjárframlög sem tryggja uppbyggingu og rekstur upplýsingamiðstöðvar á þessu svæði austan Þjórsár.

Á kynningarfundi sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi fyrr í vikunni kom fram að til stæði að klára málið fyrir kosningar en til þess að svo verði þurfa allar sveitarstjórnirnar sem koma að málinu, níu talsins, að skrifa undir skilmálana og ljóst er að ekki er til staðar full sátt um tillöguna eins og hún lítur út nú.

Fyrri grein„Benni auglýsti eftir okkur“
Næsta greinHverfisráð Árborgar mönnuð á ný