Ekki ráðherra að velja stað fyrir fangelsi

Björgvin G. Sigurðsson 1. þingmaður Suðurkjördæmis segir það á valdi Alþingis að velja nýju fangelsi stað og ótímabært sé hjá innanríkisráðherra að fullyrða að nýtt fangelsi verði reist á öðrum stað en á Litla-Hrauni.

Hann hefur ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins óskað eftir fundi með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra vegna málsins.

„Það þarf að liggja skýrt fyrir að öll uppbygging á betrunarrými fyrir öryggisfangelsi skuli byggð við Litla Hraun þar sem til staðar er áratuga þekking og reynsla, burtséð frá því hvort endurbæta þurfi gæsluvarðahaldsrými á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björgvin.

Björgvin segir þörf á faglegum og fjárhagslegum rökum fyrir ákvörðun um staðsetningu nýbyggingar í fangelsisrými upp á tvo milljarða króna.

„Það blasir við að mikill stofn- eða frumkostnaður mun liggja í nýju fangelsi á Hólmsheiði í stað þess mikla sparnaðar sem má ná fram með því að bygga við þá starfsemi sem fyrir er á Litla Hrauni,“ segir hann. „Því finnst mér það furðuverk ef taka á ákvörðun um að byggja annarsstaðar.“

Segir Björgvin að áður en lengra sé haldið þurfi þingmenn og sveitarstjórnarmenn að ræða án tafar við framkvæmdavaldið og ráðherra málaflokksins.

Sjá grein Björgvins á sunnlenska.is: Furðuleg umræða um fangelsisbyggingu

Fyrri greinÚtafakstur undir áhrifum
Næsta greinFurðuleg umræða um fangelsisbyggingu