Ekki öll nótt úti enn hjá Árborg

Árborg tapaði 67-73 þegar liðið mætti Hafnarfirði í fyrstu umferð Útsvarsins í Ríkissjónvarpinu í kvöld.

Keppnin var jöfn framan af en Hafnfirðingar tóku á sprett um miðbikið. Árborgarar gáfu hins vegar ekkert eftir og náðu að minnka muninn niður í eitt stig, svo lokakaflinn varð mjög spennandi. Hafnfirðingar tryggðu sér sigurinn með fimm stiga spurningu í lokin.

Árborg á ágæta möguleika á að komast áfram í keppninni en fjögur stigahæstu tapliðin komast í næstu umferð.

Lið Árborgar skipa þau Herborg Pálsdóttir, ljósmóðir, Gísli Þór Axelsson, læknanemi og Gísli Stefánsson, kjötiðnaðarmaður.