Ekki mikil ástæða til bjartsýni

Báran, stéttarfélag hélt félagsfund á Hótel Selfossi í gærkvöldi þar sem miklar umræður urðu m.a. um stöðu atvinnumála. Fundarmenn hafa þungar áhyggjur af væntanlegri endurskoðun samninga.

Töluverður hiti var í fundarmönnum og ekki þótti mikil ástæða til bjartsýni eins og vel kemur fram í eftirfarandi ályktun sem fundurinn samþykkti í lok fundar.

Þar krefst Báran, stéttarfélag að íslenskt launafólk verði losað úr viðjum þeirrar láglaunastefnu sem rekin er í íslensku samfélagi og að ríkið standi að fullu við þau loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamning sem undirritaður var í fyrra.

Eftirfarandi er ályktunin sem fundurinn sendir frá sér:

Burt með láglaunastefnuna
Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags haldinn á Hótel Selfossi 19. september 2012 krefst þess að ríkisvaldið standi að fullu við þau loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamning sem undirritaður var árið 2011.
Svikin hafa verið loforð um sambærilega hækkun launa og almannatrygginga og hvar er atvinnuuppbyggingin eða úrbæturnar í atvinnumálunum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni? Verðbólgumarkmið hafa ekki náðst og reikningurinn lendir af því meiri þunga á fólki eftir því sem launin eru lægri.
Meðan launaskrið er hafið í sumum starfsgreinum eru kjör þeirra lægst launuðu enn undir hungurmörkum. Verði ekki staðið við gefin loforð munu kjör þeirra sem fastir eru í viðjum lámarkstaxta versna til muna.
Fundurinn krefst þess að horfið verði frá þeirri láglaunastefnu sem ríkisvaldið hefur forgöngu um með aðgerðum sínum. Það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt að halda hluta þjóðarinnar í fátækragildru, sem leggur sífellt meir byrðar á herðar ríkisvalds og sveitarfélaga á kostnað þeirra sem þó hafa haldið vinnu sinni. Lægstu taxtar verða að hækka og þeirri fullyrðingu að launahækkanir þeirra launalægstu skapi óstöðugleika í efnahagslífinu er vísað til föðurhúsanna. Þar er annarra skýringa að leita.
Félagsfundur Bárunnar, stéttarfélags minnir á að félagið var eitt þriggja aðildarfélaga ASÍ sem vildi fella samningana við síðustu endurskoðun. Þá kom fram að ástæðan var fyrst og fremst vantraust á ríkisstjórnina sem því miður virðist hafa verið á rökum reist.
Báran, stéttarfélag krefst þess að íslenskt launafólk verði losað út úr viðjum þeirrar láglaunastefnu sem rekin er í íslensku samfélagi.

Fyrri greinSelfyssingum spáð um miðja deild
Næsta greinGunnar Rafn ráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss