Ekki meiri velta síðan í október 2007

Alls var 79 kaupsamningum um fasteignir á Suðurlandi þinglýst í októbermánuði. Fara þarf aftur til ársins 2007 til að finna jafn margar þinglýsingar í október.

Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Hagstofunnar. Þinglýsingum fækkaði verulega síðustu tvær vikur mánaðarins vegna verkfalla starfsmanna SFR hjá sýslumannsembættum.

Af samningunum 76 voru fimmtán samningar um eignir í fjölbýli, 43 samningar um eignir í sérbýli og 21 samningur um annars konar eignir. Heildarveltan var rúmlega 1,6 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 20,5 milljónir króna.

Af þessum 79 var 41 samningur um eignir á Árborgarsvæðinu, Árborg, Hveragerði og Ölfusi. Þar af voru átta samningar um eignir í fjölbýli, 29 samningar um eignir í sérbýli og fjórir samningar um annars konar eignir.

Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var 911 milljónir króna og hefur ekki verið meiri í októbermánuði síðan árið 2007.

Fyrri greinKveikt á jólaljósunum 19. nóvember
Næsta greinHamar réð ekki við Chelsie