Ekki ljóst hvar Margrét fer fram

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í framboð fyrir Dögun í þingkosningunum á næsta ári.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Margrét að ekki sé enn ljóst hvort hún verði í framboði fyrir Dögun í Suðurkjördæmi.

“Ég hef ákveðið að gefa kost á mér en það á eftir að raða niður á lista. Ég veit eiginlega ekki hvar ég enda, hvort það verður aftur á Suðurlandinu góða eða á höfuðborgarsvæðinu,” segir Magrét. “Það er verið að stofna kjördæmisfélag á Suðurlandi þannig að þetta skýrist allt fyrr en síðar.”

Margrét er 10. þingmaður Suðurkjördæmis en hún var kjörin á þing fyrir Borgarahreyfinguna. Hún er núverandi þingflokksformaður Hreyfingarinnar.

Í tilkynningu frá Dögun segir að Margrét ætli að halda áfram að gera sitt allra besta fyrir fólkið í landinu. Hún hafi fundið á eigin skinni fyrir óréttlætinu og eignatilfærslunni og skilji því vel stöðu „sjálfhverfu kynslóðarinnar“.

Fyrri greinStærsti humar sem veiðst hefur við Ísland
Næsta greinÖlvaður í innanbæjarakstri