„Ekki láta pirring eða reiði bitna á starfsfólkinu“

Sundhöll Selfoss. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Líkt og gestir Sundhallar Selfoss hafa tekið eftir þá hefur aðkoman að sundhöllinni breyst mikið í þessari viku.

Framkvæmdir eru nú hafnar í eldri hluta sundhallarinnar sem þýðir að gömlu búningsklefarnir hafa verið aflagðir sem og afgreiðslan. Næstu 2-3 mánuðina verður afgreiðsla sundhallarinnar því við útiklefana og er gengið inn um hurðina við hlið þeirra Bankavegsmeginn.

Þar tekur á móti gestum bráðabirgðaafgreiðsla sem hefur verið sett upp í tveimur gámum inn á sundlaugarsvæðinu og mun starfsfólk sundhallarinnar afgreiða gesti þar með sömu góðu þjónustunni og var í gömlu afgreiðslunni.

Á meðan beðið er eftir að nýja viðbyggingin opni í júní þá verða einungis útiklefarnir opnir en reynt hefur verið að hita þá upp eins og kostur er svo þeir séu eins þægilegir og unnt er miðað við aðstæður.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að þetta séu langt í frá fullkomnar aðstæður og eru gestir beðnir afsökunar á þeim óþægindum sem þeir verða fyrir.

„Við biðlum til allra gesta að hjálpa starfsfólki sundhallarinnar að láta þetta ganga upp næstu 2-3 mánuðina og ekki láta pirring eða reiði bitna á fólkinu sem er að reyna að þjónusta ykkur eftir bestu getu miðað við aðstæður. Þetta mun reyna á okkur en í sameiningu þá getum við horft til þess að eftir margra ára bið þá mun ný afgreiðsla, búningsklefar og innilaug líta dagsins ljós von bráðar,“ segir í tilkynningunni.