Ekki hægt að tengja alla á þessu ári

„Símanum endist ekki árið til að fara víðar í þessu fyrsta, stóra skrefi að setja upp háhraðanet á landsbyggðinni,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá lét sveitarstjórn Skaftárhrepps óánægju sína í ljós á síðasta fundi sínum þar sem Kirkjubæjarklaustur er einn af fáum þéttbýlisstöðum á Suðurlandi sem ekki fær Ljósnet Símans á þessu ári.

Í ár munu 53 þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni fá Ljósnetið og segir Gunnhildur Arna að þetta skref sé tekið fyrr en áður var áætlað.

„Við hjá Símanum metum viðskiptasambönd okkar á landsbyggðinni mikils. Þess vegna réðumst við í að breyta verkáætlun okkar. Við uppfærum símstöðvar þéttbýlisstaðanna í þessu fyrsta skrefi, sem þýðir að öll heimili í um eins kílómetra línulengd frá þeim fá Ljósnet. Önnur heimili þurfa að bíða frekari framkvæmda,“ sagði Gunnhlidur í samtali við sunnlenska.isþ

Þegar kom að því að velja þessa þéttbýlisstaðir segir Gunnhildur að það sem hafi ráðið valinu hafi verið stærð staðanna, tengingar til þeirra og staðsetning símstöðvanna í bæjarfélögunum.

„Eins og gefur að skilja er ekki hægt að tengja alla þéttbýlisstaði á Íslandi við Ljósnet á árinu 2013. Dagarnir eru einfaldlega of fáir miðað við mannafla og fé. Við höfum ekki tekið ákvarðanir fyrir árið 2014 og þess vegna er enn sem komið er óljóst með Ljósnetið á Kirkjubæjarklaustri. Hins vegar verða næstu skref Símans á landsbyggðinni metin og stigin af kostgæfni,“ bætir Gunnhildur við.

Hún bendir á að nú geta 62 þúsund heimili nýtt Ljósnetið og stefnt er að því að þau verði orðin vel ríflega 100 þúsund um mitt næsta ár en uppbyggingin hefur aðeins staðið frá árinu 2009.

„Síminn er stoltur af þessum fyrstu stóru Ljósnetskrefum á landsbyggðinni. Eins og forstjórinn sagði þá gerum við okkar besta svo fjarskipti stýri ekki byggðaþróun í landinu, heldur skapi tækifæri svo landsmenn geti sjálfir valið hvar þeir búa,“ segir Gunnhildur Arna að lokum.

Fyrri greinÞróunarverkefni sem sameinar skólana á Selfossi
Næsta greinLiam Killa í Ægi