Ekki hægt að mótmæla 120 árum síðar

Hæstiréttur dæmdi í dag að eigendur jarða, sem tilheyra svonefndum Vesturhúsum í Mýrdalshreppi, ættu ekki hlut í Dyrhólaey en að eigendur jarða, sem tilheyra svonefndum Austurhúsum, ættu einir beinan eignarétt yfir eynni. Þetta sýndu 120 ára gömul landamerkjabréf.

RÚV greinir frá þessu.

Eigendur tveggja jarða sem tilheyra Vesturhúsum, þau Þorsteinn Gunnarsson, Eva Dögg Þorsteinsdóttir og Vigfús Páll Auðbertsson, höfðu verið dæmd eigendur að samtals rúmlega 23% af Dyrhólahey í Héraðsdómi Suðurlands 18. nóvember 2014. Eigendur tveggja jarða sem tilheyra Austurhúsum, þau Matthildur Ólafsdóttir Valfells, Jón Valfells og Vigfús Ásgeirsson, og Mýrdalshreppur, sem á jarðarpart, áfrýjuðu þeim dómi til Hæstaréttar sem dæmdi þeim í vil í dag.

Samkvæmt dómi Hæstaréttar lágu fyrir í málinu tvö landamerkjabréf frá því í júní 1890; annað fyrir Austurhús og hitt fyrir Vesturhús. Telur Hæstiréttur að þess tvö landamerkjabréf séu skuldbindandi fyrir þá sem undirrituðu þau svo og aðra sem síðar hefðu komið í þeirra stað. Og á þá rétturinn væntanlega við núverandi eigendur jarðanna. Ekkert hefði komið fram sem benti til að staðið hafi verið þannig að gerð bréfanna og undirritun þeirra að ógildi varði. Tekið er fram í dóminum að eigendur Austurhúsa hefðu sem eigendur Dyrhólaeyjar, afsalað íslenska ríkinu hluta af eynni undir vita á fyrri hluta síðustu aldar. Þeim gerningum hefði verið þinglýst án þess að eigendur Vesturhúsa hefðu þá hreyft við andmælum.

Í dómnum segir að þegar litið sé til eðlis landamerkjabréfsins sem samnings um landamerki og þar með eignarhalds á landi innan þeirra marka þá sé fallist á það með eigendum Austurhúsa að eigendur Vesturhúsa geti ekki nú, rúmum 120 árum síðar, haft uppi andmæli gegn gildi bréfsins vegna þess hvernig undirritunum hefði verið háttað á það. Því væri réttur þeirra fallinn niður fyrir tómlætis sakir. Málskostnaður var felldur niður.

Frétt RÚV

Fyrri greinKristjáni sagt upp hjá Brunavörnum
Næsta grein„Klúður að stinga þá ekki af“