Ekki hægt að slátra í verkfalli

Matvælastofnun á Selfossi er ein af þeim stofnunum sem boðaðar verkfallsaðgerðir Bandalags háskólamanna ná til í dag. Verkfallið mun hafa víðtæk áhrif.

BHM starfsmenn hafa boðað verkfall eftir hádegi í dag og síðan hefst ótímabundið verkfall dýralækna, líffræðinga og matvæla- og næringarfræðinga hjá Matvælastofnun þann 20. apríl hafi ekki samist fyrir þann tíma.

Ekkert eftirlit verður framkvæmt í sláturhúsum sem hefur í för með sér að slátrun getur ekki farið fram. Starfsemi inn- og útflutningsskrifstofu Matvælastofnunar stöðvast einnig að mestu leyti og mun það hafa í för með sér að viðskipti með lifandi dýr og dýraafurðir við þriðju ríki (Rússland, Kína, Bandaríkin o.fl.) verða fyrir verulegum áhrifum.

Verkfallið nær til meira en helmings starfsmanna Matvælastofnunar. Héraðsdýralæknar, eftirlitsdýralæknar, sérgreinadýralæknar, dýraeftirlitsmenn, matvælafræðingar og líffræðingar verða í verkfalli. Einungis forstjóri Matvælastofnunar og yfirdýralæknir eru undanþegnir verkfalli hjá þessum starfsstéttum.

Eftirlit með fyrirtækjum í sjávarútvegi fellur að mestu utan verkfallsaðgerða.

Fyrri greinSnýst um miklu meira en úrvalsdeildarsætið
Næsta greinBorgarverk bauð lægst í veg og lagnir