Ekki gert ráð fyrir miklum gjaldskrárhækkunum

Lögð hefur verið fram vinnuáætlun sem nú er í vinnslu fyrir fjárhags- og framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins Ölfus fyrir árið 2013.

Einnig hefur bæjarráð fengið vinnuplagg vegna gjaldskráa sveitarfélagsins sem taka eiga gildi 1. janúar 2013.

„Ég á ekki von á miklum gjaldskrárhækkunum, við gerum ráð fyrir að þetta verði fyrst og fremst verðlagsbreytingar,” sagði Ólafur Örn Ólafsson, sveitarstjóri Ölfus, en bæjarstjórn mun taka málið til afgreiðslu í næstu viku. Aðspurður sagðist Ólafur ekki eiga von á miklum breytingum á rekstri Ölfus á næsta ári.

„Við erum bara á fyrstu metrunum en kvíðum ekki þessari vinnu,” sagði Sveinn Steinarsson sem situr í bæjarstjórn fyrir B-lista.