Ekki framkvæmdir án vegatolla

Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir á suðvesturlandi eru ekki framkvæmanlegar án vegatolla segir Ögmundur Jónasson samgönguráðherra.

Vegagerðin hyggst fjármagna boðaðar vegaframkvæmdir á suður- og vesturlandi með veggjöldum. Áætlanir gera ráð fyrir 7 króna gjaldi á hvern ekinn kílómetra. Það gæti þá kostað um 700 krónur að aka fram og til baka milli Reykjavíkur og Selfoss.

Í samtali við RÚV segir Ögmundur að vissulega megi segja að með þessu sé verið að tvískattleggja bíleigendur. Þannig hafi Akurnesingar verið tvískattaðir. Þeir hafi þurft að greiða fyrir akstur um Hvalfjarðargöngin, en jafnfram skatta af bensíni. ,,Spurningin sem menn standi frammi fyrir sé sú: Ætla menn að ráðast í þessar framkvæmdir eða ekki? Ef við ætlum að ráðast í þessar framkvæmdir, verðum við, eins og komið sé fyrir okkur núna, að hafa þennan hátt á,“ segir Ögmundur.

Hann bætir við að í sínum huga sé það grundvallaratriði að þetta sé ekki gert með það fyrir augum að skapa eigendum arð, heldur til að veita landsmönnum þjónustu og gott samgöngukerfi. Ögmundur segir ekki frágengið hver veggjöldin verði.

Fyrri greinSöfnuðu pökkum fyrir bágstödd börn
Næsta greinVerðlaunin komu skemmtilega á óvart