Ekki forsvaranlegt hætta skólahaldi á Eyrarbakka

Barnaskólinn á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hverfisráð Eyrarbakka gerir þá kröfu að ráðist verði án tafar í framkvæmdir við nýtt framtíðarhúsnæði BES á Eyrarbakka.

Þetta kemur fram í ályktun sem hverfisráðið sendi á bæjarstjórn og hlutaðeigandi aðila í gær.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá var húsnæði Barnaskólans á Eyrarbakka lokað í vikunni vegna myglu og mun kennsla fara fram á Stað og í Rauða húsinu á næstunni.

Í ályktuninni kemur fram að hverfisráðið sé þakklátt skólastjórnendum og forsvarsmönnum sveitarfélagsins fyrir að bregðast við án tafar með því að loka húsnæðinu strax, eftir að úttekt EFLU leiddi í ljós að mygla væri í skólanum.

„Hverfisráð leggur áherslu á að sveitarfélagið hafi hagsmuni nemenda og starfsfólks BES í forgangi. Gætt verði að því að nemendur, kennarar og annað starfsfólk skólans fái viðeigandi ráðgjöf og stuðning til að bregðast sem best við þeim afleiðingum sem þetta ástand hefur haft á heilsu og líðan viðkomandi,“ segir í ályktun hverfisráðs, sem vill að skólahald verði áfram á Eyrarbakka.

„Skóli er samfélagsleg og menningarleg nauðsyn í hverju samfélagi. Barnaskólinn á Eyrarbakka hefur verið samofinn þorpinu samfellt í 170 ár og ekki forsvaranlegt að gera breytingu þar á,“ segir ennfremur í ályktuninni.

Fyrri greinKennsla hefst aftur á Stað og í Rauða húsinu
Næsta grein1.677 í einangrun og sóttkví á Suðurlandi