Ekki einstakra þingmanna að ákveða virkjanir

„Ákvörðun um hvort ráðist verði í virkjun neðri hluta Þjórsár verður í höndum Alþingis en ekki einstakra þingmanna,“ segir Björgvin G Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Hann segir það ráðast með haustinu hvernig virkjunarmálum verður háttað. „Fyrir nokkrum vikum urðu lögin um rammaáætlun að veruleika og til stendur að ljúka röðun kostanna fyrir haustið. Þá liggur fyrir hvað verður virkjað og hvað verndað,“ segir Björgvin.

Umræðuna um virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefur borið víða, s.s. inn í umræður um aðkomu ríkisins að kjarasamningum, þrátt fyrir að deilt sé um þær virkjanir innan stjórnarflokkanna.

„Mér hefur ekki verið lofað einu né neinu varðandi Þjórsá,“ sagði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, en sem kunnugt er rökstuddi hún stuðning sinn við ríkisstjórnina í nýlegri vantraustsatkvæðagreiðslu með vísun í að hún vonaðist til að ekki yrði virkjað í Þjórsá.

Aðspurð sagði Guðfríður Lilja að hún hefði ekki fengið nein persónuleg loforð á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð um virkjunina og tók reyndar fram að þannig ynni hún ekki í sinni pólitík. Á þingi þóttust menn sjá að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefði tekið Guðfríði Lilju tali eftir að Ásmundur Einar Daðason hafði stutt vantraust á ríkisstjórnina og þar með skapað óvissu um stuðning við hana á þingi. Guðfríður Lilja sagði að þetta væri skemmtileg saga sem ætti ekki við rök að styðjast.

,,Það sem ég átti við er að í því pólitíska landslagi sem er í gangi í dag er eina vonin um að Þjórsá verði látin í friði bundin við þessa ríkisstjórn. Þar að baki lá sú pólitíska vissa að núverandi ríkisstjórn væri eina ríkisstjórnin þar sem náttúruverndarsjónarmið fengju einhvern farveg.” Guðfríður Lilja sagðist vera sannfærð um að ekkert annað stjórnarsamstarf gæti komið í veg fyrir virkjanir í Þjórsá.

Fyrri greinMistur með suðurströndinni
Næsta greinÞúsundir á sveitadegi