Ekki búið að panta dúkinn á Hamarshöllina

Gamla Hamarshöllin sem fauk í febrúar. Ljósmynd/Hveragerðisbær

Nýr dúkur fyrir Hamarshöllina hefur ekki verið pantaður og skoðar nýr meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar nú möguleikana til þess að tryggja íþróttastarf Hvergerðinga næsta vetur.

Í lok apríl birtist frétt á vef Hveragerðisbæjar frá Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra þar sem fram kemur að samningur um kaup á nýjum dúk á höllina við slóvenska framleiðandann Duol hafi verið undirritaður, í samræmi við ákvörðun fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi þann 13. apríl.

Í tilkynningu frá nýja meirihlutanum, sem send var út í gærkvöldi, segir að nýi dúkurinn hafi aldrei verið pantaður og aldrei gerður samningur um slíkt og engin gögn um málið finnist í málakerfi bæjarins. Fyrrverandi bæjarstjóri hafi undirritað tilboð frá Duol, þar sem fram kemur að greiða þurfi 70% af upphæðinni við pöntun.

„Aldrei hafa þessi 70% verið greidd, né virðist fyrrum meirihluti hafa hugað að fjármögnun á uppbyggingu Hamarshallarinnar. Því er ljóst að upplýsingar frá fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóra hans um pöntun og samningagerð á dúk frá Duol var ekki rétt og byggði ekki á neinum gögnum,“ segir í tilkynningu nýja meirihlutans.

Nýr dúkur tilbúinn í október
Strax eftir kosningar kölluðu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar eftir upplýsingum um stöðu málsins en þá kom í ljós að nánast engin gögn lágu fyrir hjá Hveragerðisbæ um málið. Þá var kallað eftir upplýsingum og gögnum frá fyrrum bæjarstjóra sem svaraði ekki erindinu.

Síðastliðinn mánudag barst Hveragerðisbæ svar frá Duol þar sem fram kemur að aldrei hafi verið gengið frá pöntun og því hafi framleiðsla á dúknum aldrei farið af stað. Miðað við stöðuna gæti Duol lokið framleiðslu úr verksmiðju sinni í byrjun október en þá eigi eftir að flytja dúkinn til Íslands og koma honum upp. Samkvæmt sérfræðingum hjá Hveragerðisbæ þarf að blása húsið upp í síðasta lagi í ágúst en það má aðeins gera í mjög stilltu veðri. Því sé óvíst hvort hægt verði að koma húsinu upp fyrir veturinn, þar sem ekki sé hægt að treysta á gott veður.

Skoða fleiri kosti
„Ábyrgðin á þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin liggur alfarið hjá fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins en ábyrgðin á því hvað nú gerist í framhaldinu liggur hjá núverandi meirihluta,“ segir í tilkynningu nýja meirihlutans, sem skoðar nú tvo kosti í stöðunni; loftborið hús frá Duol eða einangrað stálgrindarhús frá tveimur norskum framleiðendum, sem mögulega væri hægt að setja á sökkul Hamarshallarinnar.

„Um leið og fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir í málinu mun meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar boða til aukabæjarstjórnarfundar til að taka ákvörðun hratt og vel um uppbyggingu Hamarshallarinnar og mun bæjarstjórn vinna náið með Íþróttafélaginu Hamri vegna málsins. Vonast er til þess að þessar upplýsingar liggi fyrir á næstu dögum og verði þá hægt að koma málinu áfram. Það er von meirihlutans að allir sem að málinu hafa komið, Íþróttafélagið Hamar og öll bæjarstjórn muni vinna saman að því að leysa úr þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin,“ segir í tilkynningunni frá nýja meirihlutanum.

Fyrri greinÓskalögin óma áfram í Skálholti
Næsta greinEinar ráðinn sveitarstjóri Mýrdalshrepps