Ekki breytingar að sjá við brúna

Ekki er að sjá að miklar breytingar hafi orðið við undirstöður brúarstólpa Eldvatnsbrúar í nótt. Í gær hafði Skaftárhlaup grafið undan öðrum brúarstólpanum svo hann hékk að hluta í lausu lofti.

Brúnni var lokað fyrir allri umferð í gær og svo verður áfram næstu daga og vikur, þar til tekist hefur að treysta undirstöður brúarinnar, að því er fram kemur í fréttum RÚV.

Mjög hefur dregið úr krafti hlaupsins og hefur rennsli minnkaði töluvert við Sveinstind og í Eldvatni. Hins vegar hækkar nú í dyngjum vestan við Hunkubakka. Slagveður er á flóðasvæðinu, og bætist því mikil úrkoma við það vatn sem kemur undan jökli. Búist er við mikilli rigningu á morgun og rigningu næstu daga.

Vatn lekur að jafnaði úr Skaftá út á Skaftáreldahraun. Hraunið virkar sem sía á jökulgorminn í vatninu og vatnið kemur fram sem hreint lindavatn undan hraunjaðrinum.

Eftir 230 ára síuhlutverk er hraunið orðið fyllt að stórum hluta og yfirborðið farið að þéttast. Hlaupvatnið hefur nú náð niður fyrir brún Skaftáreldahraunsins þannig að vaxið hefur verulega í Tungulæk og Grenlæk. Rennslið í Tungulæk er nú þrefalt meira en mest verður utan hlaupa.

Fyrri greinÞórsarar fengu silfrið
Næsta greinBjörn Steinar ráðinn framkvæmdastjóri fjármála