Ekki breyta byggðanöfnum

Félag eldri borgara í Biskupstungum mótmælir því harðlega að búið sé að taka niður allar vegmerkingar sem sýna hin fornu heiti byggðarlaga í Bláskógabyggð.

Félagið hefur sent frá sér ályktun þess efnis þar sem bent er á að Þingvallasveit, Laugardalur og Biskupstungur séu nú heiti sem ekki mega lengur sjást.

Telur félagið mikilvægt að varðveita og hlúa að þeirri sögu og þeim menningararfi sem fólginn er í hinum gömlu sveitanöfnum og að það stríði á engan hátt á móti hinni nýju stjórnsýslueiningu, Bláskógabyggð.

Hvetur félagið sveitarstjórn til að setja að nýju upp merkingar þannig að gestir og heimamenn séu minntir á þessi gömlu heiti á gömlum hreppamörkum.

„Við sem eigum Skálholt, Þingvöll og Haukadal eigum einnig að eilífu hin fornu heiti sveitanna, Laugardalur, Biskupstungur og Þingvallasveit og þau eru okkur ekki síður mikilvæg,” segir í ályktun félagsins.