Ekki þörf á umhverfismati fyrir Búrfell 2

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur ekki þörf á sérstöku umhverfismati vegna lúkningar Búrfellsvirkjunar en Landsvirkjun hefur óskað eftir því við Skipulagsstofnun að metið verði hvort framkvæmdin skuli háð slíku umhverfismati og stofnunin leitaði álits hreppsins vegna þessa.

„Við teljum að þarna sé í raun verið að skoða að klára framkvæmdir við virkjunina sem hófust árið 1981 og rask vegna þessa verður í raun sáralítið,“ segir Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps í samtali við Sunnlenska. Sveitarstjórn ályktaði því að ekki sé skilyrði að gangast undir umhverfismat.

Um er að ræða þann möguleika að bæta nýtingu á vatni sem rennur nú ónýtt framhjá Búrfellsstöð. Þar renna um 350 gigavattstundir framhjá virkjuninni.

Hjá Landsvirkjun fengust þær upplýsingar að þessi virkjunarkostur sé enn í þróun og engar frekari ákvarðanir hafa verið teknar. Því sé ekki hægt á þessu stigi að segja til um mögulegt upphaf framkvæmda ef af verður.

Sveitarstjórn var ekki einhuga en Oddur G. Bjarnason greiddi atkvæði gegn bókun sveitarstjórnar á þeim forsendum að ekki hefði farið fram umhverfismat á fyrri framkvæmdum við Búrfellsvirkjun.

Fyrri greinFuglaskoðun í Friðlandinu í dag
Næsta greinTryggvi bjargar 17. júníkaffinu