Ekkert samfélagssmit á Suðurlandi síðasta mánuðinn

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tveir eru í einangrun vegna COVID-19 á Suðurlandi og í báðum tilfellum er um að ræða smitaða einstaklinga sem komu inn á svæðið til þess að dvelja í sumarhúsum.

Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, staðfestir þetta í samtali við sunnlenska.is.

Hún segir að staðan sé góð og ekkert samfélagssmit hafi greinst á Suðurlandi síðan í fyrstu vikunni í janúar.

Síðustu mánuði hafa heilbrigðisyfirvöld ítrekað hvatt smitaða einstaklinga til að flytja sig alls ekki á milli heilbrigðisumdæma í veikindum sínum. Elín Freyja segir að þrátt fyrir það séu sumarbústaðirnir vinsælir, bæði fyrir sóttkví og einangrun.

„Við vonum bara innilega að fólk sem dvelur þar sé einkennalaust, því það getur tekið dágóða stund að komast til þeirra ef veikindin versna skyndilega. En Covid deildin fylgist með þeim og upplýsir okkur ef það er eitthvað tvísýnt,“ sagði Elín Freyja í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinMetstökk Evu Maríu tryggði henni gullið
Næsta greinViðreisn velur uppstillingu