Ekkert lát á skemmdarverkum

Þorsteinn Gunnarsson, á Vatnsskarðshólum í Mýrdal, segir ekkert lát hafa orðið á skemmdarverkum og innbrotum á lokuð svæði friðlandsins í Dyrhólaey.

Allt frá því að innrás var gerð í friðlandið í Dyrhólaey þann 10. júní sl. hafa íbúar í nágrenninu hvað eftir annað orðið vitni að því að sömu einstaklingar hafi rutt burt hliðum og fjarlægt skilti með upplýsingum. Áður blómlegt varpland fugla er nú eyðimörk ein og segir Þorsteinn að fjöldi hreiðra hafi verið afræktur eða hreinlega eyðilagður af manna völdum.

“Þrátt fyrir fréttir í fjölmiðlum af undirbúningi kæru af hálfu Umhverfisstofnunar á hendur þeim sem brot þessi frömdu, og fullyrðingum starfsmanna UST um að lögregla vakti svæðið, bólar ekkert á slíkum aðgerðum, enda fara nú ofbeldismenn um friðlandið með ögrandi yfirgangi sem þeir eigi það,” segir Þorsteinn og nefnir sem dæmi að sl miðvikudag hafi íbúi í Dyrhólahverfi verið vitni að því þegar bifreið frá ferðaþjónustufyrirtækinu Hólasport með ferðamenn innanborðs ók niður lokunarhlið inn á varplandið á Lágey.

“Ökumaðurinn viðhafði ógnandi og ruddalegt orðbragð hegðun sinni til réttlætingar. Síðla að kveldi sama dags fjarlægði einn helsti forsprakki ofbeldismannanna nýtt hlið Umhverfisstofnunar á sama stað,” segir Þorsteinn.

“Á sama tíma og umhverfisráðherra stofnar til nýrra friðlanda norðan heiða hefur ein helsta náttúruperla landsins, friðlandið í Dyrhólaey, breyst úr iðandi lífríki í vettvang skemmdarverka með lögbrotum og eyðileggingu á fuglalífi af völdum ofbeldismanna, án þess að merki sjáist um að yfirvöld, lögregla eða Umhverfisstofnun, bregðist á nokkurn hátt við,” segir Þorsteinn og bætir við að auglýsing um friðlýsingu Dyrhólaeyjar kveði m.a. á um að bannað sé að skaða eða trufla dýralíf og að bændur haldi nytjum sínum á svæðinu.

“Verði þessir þættir fyrir tjóni er réttur almennings til aðgengis að óspilltri náttúru staðarins að sama skapi fyrir borð borinn.”

Fyrri greinDrullugóður Delludagur
Næsta greinSelfoss styrkir stöðu sína