Ekkert hámark á affallsvatni

Ekki er kveðið á um það í starfsleyfi Hellisheiðarvirkjunar hversu mikið af brennisteinsmenguðu affallsvatni megi dæla niður á neyðarlosunarsvæði. Mengað vatn hefur blandast grunnvatni á svæðinu.

Eins og greint hefur verið frá var brennisteinsmenguðu affallsvatni frá Hellisheiðarvirkjun ítrekað dælt niður á svokölluð neyðarlosunarsvæði af og til í tvö ár þar sem það blandaðist grunnvatni. Á tímabili árið 2008 fóru upp undir þrjátíu prósent alls skiljuvatns niður á neyðarlosunarsvæði. Eftir breytingar á ekki að þurfa að grípa til þessa ráðs nema í neyð, og þess hefur einmitt þurft síðustu tvær vikur, meðan verið var að gera við dælubúnað sem bilaði.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur eftirlit með Hellisheiðarvirkjun og veitir henni starfsleyfi. Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins, sagði í samtali við RÚV að í starfsleyfi virkjunarinnar væri ekki kveðið á um það hversu mikið affallsvatn megi losa með neyðarlosun. Þess vegna hafi ekki verið gerðar formlegar athugasemdir við Orkuveituna vegna þessa.

Starfsleyfið sé hins vegar í stöðugri endurskoðun og nú verði fundað með Orkuveitunni um mögulega kosti, eins og þá að skilgreina í starfsleyfinu hvers konar neyð, sé skilyrði neyðarlosunar.

RÚV greindi frá þessu

Fyrri greinFerðaþjónustuaðilar heimsóttu Hveragerði
Næsta greinLeyndarmálið verðlaunað