Ekkert ferðaveður á Suðurlandi

Sjúkraflutningmenn moka frá hurð á Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Ljósmynd/Viðar Arason

Lögreglan á Suðurlandi biðlar til fólks að vera ekki á ferðinni í dag. Flestar aðalleiðir á Suðurlandi eru lokaðar og víða ófært innan þéttbýlis.

Aðgerðastjórn hefur verið virkjuð í gegnum fjarfundabúnað og eru fulltrúar í henni staddir í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi, á lögreglustöðinni á Selfossi og í heimahúsi í Reykholti.

Ekkert ferðaveður er nú á Suðurlandi, mikill vindur, ofankoma og stórhríð og innan bæjar hefur víða dregið í mannhæðar háa skafla.

Björgunarsveitir hafa staðið í ströngu í nótt og morgun við að aðstoða vegfarendur sem lent hafa í vandræðum sem og við að koma heilbrigðisstarfsfólki og viðbragðsaðilum til og frá vinnu.

Fæstir vegir færir
Lokað er um Hellisheiði, Þrengsli, Suðurstrandarveg sem og Mosfellsheiði og þar er stórhríð. Og opna þessir vegir ekki fyrr en liðið er á daginn miðað við veðurspá.

Ekkert ferðaveður vegna hvassviðris, snjókomu eða skafrennings og slæms skyggnis. Ófært í uppsveitum. Þjóðvegur 1 er lokaður undir Eyjafjöllum og verður það fram eftir degi.

Þjóðvegur 1 er lokaður í Öræfum en þar er ofsaveður og verður það fram eftir degi.

Fyrri greinHellisheiði og Þrengslum lokað
Næsta greinRafmagnslaust í uppsveitunum