Ekkert ferðaveður á Suðurlandi – Hellisheiði lokuð

Vegna ófærðar er vegurinn um Hellisheiði lokaður. Opið er um Þrengsli og Sandskeið. Hálka og þæfingur er víða á Suðurlandi.

UPPFÆRT KL. 15:15: Hellisheiðin er enn lokuð sem og Suðurstrandarvegur. Hálka og skafrenningur er á Sandskeiði og í Þrengslum. Á Suðurlandi er víða talsverður snjór á vegum – þæfingur, þungfært eða jafnvel ófært almennri umferð. Hálka er með ströndinni suður um.

Vindur hefur náð hámarki suðvestanlands. Úr þessu gengur niður hægt og bítandi og dregur þá úr skafrenningi.

Björgunarsveitir voru ræstar út á ný í morgun til aðstoðar ökumönnum sem og til að loka Hellisheiði og Þrengslum. Vonskuveður er nú þar en einnig er bálhvasst og dimmt á köflum undir Ingólfsfjalli. Þungfært er í mörgum íbúðagötum í Árborg en aðalleiðir voru mokaðar undir morgun.

Einn hópur frá Björgunarfélagi Árborgar sótti heilbrigðisstarfsmann sem þurfti að komast til vinnu en kemst ekki vegna færðar. Bíll frá Björgunarfélagi Árborgar hefur verið útbúinn til sjúkraflutninga og er til taks með sjúkraflutningum HSu. Sveitin er með annan bíl sem sinnir einnig verkefnum innanbæjar og snjóbíll sveitarinnar er til taks.

Björgunarsveitir voru víða að störfum í gærkvöldi vegna veðursins; og voru sveitir frá Hveragerði, Grímsnesi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Árborg og Þorlákshöfn meðal annars kallaðar út. Í flestum tilvikum var um fasta bíla að ræða, einn eða fleiri.en einnig bárust tilkynningar um fok og heilbrigðisstarfsfólk var ferjað til vinnu og lokunarpóstar á vegum mannaðir. Björgunarsveitir á Suðurlandi þar sem veður var hvað verst í gær voru að störfum fram að miðnætti en þá var veðrið að mestu gengið niður.

FRÉTTIN VERÐUR UPPFÆRÐ

Fyrri greinFSu skellti toppliðinu – Tröllatvenna Woods
Næsta greinÚtgáfutónleikar Kalla Hallgríms í Aratungu