Ekkert ferðaveður milli Eyjafjalla og Klausturs

Lögreglan á Hvolsvelli vekur athygli á því að ekkert ferðaveður er í augnablikinu frá Eyjafjöllum og austur að Kirkjubæjarklaustri. Strætó fauk út af veginum á Reynisfjalli nú fyrir stundu.

Engan sakaði og bíllinn er lítið skemmdur. Ekki verður þó reynt að ná bílnum aftur upp á veg fyrr en veðrið gengur niður.

Lögreglan hvetur fólk til að fylgjast með veðurfréttum. Búist er við stormi (meira en 20 m/s) syðst á landinu.

Veðurstofan gerir ráð fyrir austan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast við ströndina. Norðaustan 18-25 og rigning í kvöld, en 20-28 um tíma í nótt, hvassast austast. Talsverð rigning í fyrramálið, en dregur úr vindi og úrkomu eftir hádegi. Hiti 2 til 7 stig.

Fyrri greinJónas og Ritvélarnar á Selfossi
Næsta greinSleðaflokkurinn vel búinn fyrir veturinn