Ekið á stúlku á rafvespu

Ekið var á unga stúlku á rafvespu í Hveragerði síðastliðinn föstudag. Stúlkan slapp við meiðsli en lítils háttar tjón varð á vespunni.

Í þessu samhengi má geta þess að lögreglumenn voru í síðustu viku að fylgjast með umferð rafvespna í Hveragerði vegna orðróms um að unglingar væru að reiða börn á skólaaldri á vespunum. Lögreglumenn urðu ekki varir við nein tilvik af þessu tagi.

Rafvespur þessar eru flokkaðar sem reiðhjól og ekki má reiða farþega á hjóli nema börn sem eru undir sjö ára aldri og skylt er að nota þar til gert sæti. Jafnframt verður hjólreiðamaðurinn að vera orðinn 15 ára.

Lögreglan segir að foreldrar ættu að ræða þessi mál við börn sín og hvetja til þess að fara eftir þeim reglum sem gilda um hjólreiðar og fyrirbyggja slys. Það sé sárt að verða fyrir slysi og hvað þá ef hægt er að komast hjá því.

Fyrri greinFá kæru vegna nætursunds
Næsta greinSautján ára á barnum