Ekið á stúlku á Flúðum

Mikil umferð hefur verið á Flúðum í dag en um kl. 16 var ekið á unga stúlku fyrir framan Hótel Flúðir.

Stúlkan kastaðist upp á vélarhlíf bílsins og skall síðan í götunni. Meiðsli hennar voru að öllum líkindum minniháttar en hún var flutt til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Björgunarsveitarmenn úr Eyvindi á Flúðum hlúðu að stúlkunni þangað til sjúkrabíll kom frá Selfossi.

Mikil umferð hefur verið í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í dag og hún hefur að mestu leyti gengið vel.

Lögreglan á Selfossi er nú á leið upp á Kjalveg en þar varð bílvelta, skammt fyrir ofan Gullfoss. Ekki er vitað á þessari stundu hvort slys hafi orðið á fólki.