Ekið á dreng á rafmagnsvespu

Ekið var á dreng á rafmagnsvespu um kl. 18 á páskadag á gangbraut á Breiðumörk á móts við Hverabakarí í Hveragerði.

Ökumaður bifreiðar sem hlut átti að máli stöðvaði og ræddi við drenginn og fékk hjá honum upplýsingar en veitti honum engar upplýsingar á móti. Drengurinn slasaðist ekki en tjón varð á vespunni.

Lögreglan biður umræddan ökumann að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Annars var páskahelgin tiltölulega róleg hjá lögreglunni á Selfossi. Tuttugu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur, þrír fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir akstur undir áfengisáhrifum.