Eiturefnaslys í Hellisheiðarvirkjun

Manni var bjargað úr tanki í Sleggjunni, einu af húsum Hellisheiðarvirkjunar, eftir að hann missti meðvitund þegar brennisteinsgas lak út í andrúmsloftið í morgun.

Að sögn lögreglu voru menn að störfum í tanknum, sem heldur húsinu eiturefnafríu, þegar skyndilega varð vart við brennisteinsgasleka. Einn maður var í tanknum þegar þetta gerðist og heyrðu vinnufélagar hans þegar hann hneig niður. Þeir höfðu snör handtök og drógu manninn út.

Hann var fluttur á slysadeild í Reykjavík og á ekki að hafa orðið meint af samkvæmt lögreglu. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði var kallað út kl. 11:03 í morgun og komu slökkviliðsmenn í veg fyrir lekann.

Fyrri greinGífurlegt magn af utankjörfundaratkvæðum
Næsta greinBílvelta á Laugarvatnsvegi