Eitthundrað þúsund rúmmetrar af efni dælt úr Landeyjahöfn

Dæluskip í Landeyjahöfn. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Sigurður Jónsson

Haustdýpkun Landeyjahafnar hófst 16. september síðastliðinn. Björgun ehf. sér um dýpkunina og er áætlað að fjarlægja þurfi um 100.000 rúmmetra af efni úr höfninni á tímabilinu sem stendur til 15. nóvember.

„Frá því Björgun hóf dýpkun nú í september hafa um 50 þúsund rúmmetrar af efni verið fjarlægðir úr höfninni. Dýpið í höfninni er almennt gott en áhersla er lögð á að halda góðu dýpi í hafnarmynninu og hreinsa það þegar veður leyfi. Ef dýpi er nægjanlegt í hafnarmynninu er dýpkað innan hafnar í fyrirbyggjandi verkefnum,“ segir Fannar Gíslason forstöðumaður hafnardeildar Vegagerðarinnar.

Veður hefur mikið að segja um hvort unnt sé að vinna við dýpkun í höfninni. Síðasta dýpkunartörn fór fram  9. til 13. október. Verktaki hefur þurft að fara frá svæðinu meðan lægðir ganga yfir og er nú í Þorlákshöfn vegna veðurs.

Nýi Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar í dag þar sem ölduhæð var of há til að sigla inn í Landeyjahöfn. Hins vegar er ölduspáin hagstæð fyrir næstu sjö daga og því ætti Herjólfur að sigla til Landeyjahafnar næstu daga.

Frétt á vef Vegagerðarinnar

Fyrri greinDeiliskipulag fyrir Kerið samþykkt
Næsta greinMikilvægt að allir hafi sömu tækifæri á vinnumarkaði