Eitt fallegasta litastóð íslenska hestsins er í Sölvholti í Flóa

„Við erum mikið áhugafólk um liti búfénaðar og notkun litarafbrigða til að viðhalda erfðafjölbreytileika bústofna. Mesta áherslu leggjum við þó á það að bjarga litföróttum lit frá útrýmingu úr hinum íslenska hrossastofni.“

Þetta segir Páll Imsland en hann og dóttir hans, Freyja Imsland eru helstu sérfræðingar landsins í litum hrossa. Þau hafa aðsetur á Selfossi og ferðast út frá staðnum til að skoða falleg hross á Suðurlandi og víðar. Þau segja bæði að eitt fallegasta litastóð íslenska hestsins sé í Sölvholti.

Litförótt hross í Öræfum
Snemma á 10. áratugnum fór Páll að velta hestalitum fyrir sér, skoða þá og mynda. Litförótt hross var erfitt að finna, en í Svínafelli í Öræfum hitti hann fyrir fjögur systkini litförótt, af gömlum svínfellskum stofni. Eigandi hrossanna, Magnús Lárusson á Svínafelli, var ekki sammála rituðum lýsingum á litförótta litnum, og sagði sín hross ekki vera ljós á vetrum.

Páll hóf þá reglulegar ferðir til Svínafells, þar sem hann myndaði hrossin með nokkurra vikna millibili, svo að litbreytingarferlið væri allt kortlagt. Þessar myndatökur leiddu í ljós að litbreytingarferlið er nátengt vexti vetrar- og sumarfelds, hrossin væru dökk á vetrum þegar feldurinn er hvað mestur, hvít vor og haust þegar feldurinn er millisíður, og ljósleit um sumarið þegar feldurinn er hvað styttstur. Úr þessum myndaseríum spratt fyrsta fræðilega lýsingin á litbreytingarferli litföróttra hrossa.

Páll segir að litföróttur litur í íslenskum hrossum einkennist af litbreytingarferli, þar sem litur einstaklingsins breytist í hringrás litar og litleysis, ætíð á sama hátt, ár eftir ár. „Hinn litförótti hestur fer litum en lýsingar á því hvernig þessu litbreytingarferli er háttað hafa breyst með áranna rás,“ segir Páll.

Mikið af litum í Sölvholti
Í Sölvholti í Flóahreppi eru tvö stóð með sitthvorn graðhestinn þar sem sérstakir litir eru allsráðandi. Anna Jónsdóttir, sem sér um búskapinn á bænum hefur mikinn áhuga á litum og það er því henni að þakka hve vel gengur að rækta hross á staðnum með fallegum litum.

„Ef ég lendi í einhverjum vandræðum eða er í vafa hvernig best er að para stóðhest og meri til að fá rétta litinn þá hef ég samband við Pál eða Freyju, þau eru með þetta á kristaltæru enda miklir fagmenn þar á ferð,“ segir Anna.

Hún segir að þeir útlendingar sem sjái hrossin í Sölvholti séu allir stórhrifnir enda hefur hún meira í gamni en í alvöru hugsað út í það að bjóða upp á sérstakar litaferðir fyrir hópa í stóðin í Sölvholti.

Fyrri greinJazz- og blúshátíð á Blómstrandi dögum
Næsta greinSpennandi vetur framundan í grunnskólunum