Einungis frítt í sund fyrir íbúa Árborgar

Bæjarstjórn Árborgar stefnir að því að gefa út sérstök íbúakort á næsta ári sem veita börnum, unglingum og eldri borgurum frían aðgang að sundlaugum sveitarfélagsins.

Um leið hefst gjaldtaka af gestum í þessum aldurshópum sem ekki hafa lögheimili í sveitarfélaginu. Í dag er frítt fyrir öll börn að 18 ára aldri í sund á Selfossi og Stokkseyri, sem og eldri borgara, 67 ára og eldri, óháð því hvort sundlaugargestirnir búa í Árborg eða annarsstaðar.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun Sveitarfélagsins Árborgar fór fram á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku.

Í greinargerð með fjárhagsáætluninni segir að í tengslum við opnun endurbættrar aðstöðu í Sundhöll Selfoss næsta sumar verði gefin út sérstök íbúakort fyrir börn og unglinga og eldri borgara með lögheimili í sveitarfélaginu. Íbúakortið veitir þeim ókeypis aðgang í sund, líkt og verið hefur, en á sama tíma mun hefjast gjaldtaka af gestum í þessum aldurshópum sem ekki hafa lögheimili í sveitarfélaginu.