Einstök upplifun á jöklinum

„Í rauninni er mest að gera hjá okkur í febrúar og mars – það er mánuðirnir okkar,“ segir Ársæll Hauksson hjá Southcoast Adventure, ferðaþjónustufyrirtæki að Hamragörðum í Rangárþingi eystra.

„Munurinn á sumar- og vetrarferðamennsku er að fólk dvelur í styttri tíma á veturna, en það gerir svo mikið í einu. Fólkið fer í fimm, sex tíma ferð með okkur og getur gert eitthvað sem það getur ekki gert annars staðar í heiminum, þá er það búið að gera eitthvað í stutta fríinu sínu sem er einstakt.“

Southcoast adventure sérhæfir sig í jeppaferðum og hafa ferðir upp á Eyjafjallajökul verið mjög vinsælar síðan fyrirtækið var stofnað árið 2009.

„Það er auðvitað ótrúleg upplifun að geta keyrt á jökli og endað uppi á toppi þar sem þú áttar þig á því að þú ert búinn að vera að keyra yfir eldstöðvar á virku eldfjalli. Svo er þvílíka víðsýnið þarna uppi. Þetta er svo sérstakt, þú gerir þetta ekkert annars staðar,“ segir Ársæll. „Líka það að sjá niður í fjöru. Það er það sem þeim finnst svo ótrúlegt að vera svona stutt frá fjörunni en samt á jökli, að það sé ekki lengra á milli.“

Þrír vinna hjá fyrirtækinu allt árið, en yfir sumartímann bætir fyrirtækið við tveimur til þremur starfsmönnum. „Svo ráðum við inn verktaka eftir þörfum,“ segir Ársæll en eingöngu vinna heimamenn hjá fyrirtækinu. „Við leggjum mikið upp úr því að hafa starfsfólk úr héraðinu að vinna í þessu.“

Annað sem forráðamenn Southcoast adventure leggur mikið upp úr eru öryggiskröfur enda geta ferðir sem þessar verið varasamar. „Hér eru allir búnir með flest þau námskeið sem slysavarnarfélögin bjóða upp á,“ segir Ársæll en tekur það jafnframt fram að þeir hafi aldrei þurft að nota þá þekkingu. „Þetta er unnið þannig að við eigum ekki að þurfa að lenda í því. Þekkingin gerir það að verkum að þú eigir ekki að þurfa að nota þetta.“

Auk þess að vera með daglegar ferðir á Eyjafjallajökul eru ferðir inn í Þórsmörk og Landmannalaugar alla daga. Einnig fara þeir með ferðalanga, sem er að stærstum hluta erlendir, upp á Fimmvörðuháls. „Þetta eru alls ekki eingöngu, en að langmestu leyti erlendir ferðamenn. Það er auðvitað alltaf eitthvað af Íslendingum líka,“ segir Ársæll og bætir við að ferðirnar séu vinsælar. „Þetta er uppávið, hægt og bítandi.“

Fyrri greinSýningaropnun í Tryggvaskála
Næsta greinTónleikar á bryggjunni í kvöld