Einstök teikning eftir Kjarval fannst í Eiríkssafni

Einstök teikning eftir Jóhannes Kjarval fannst í vetur í bók í Eiríkssafni í Bókasafninu á Selfossi.

Myndin fannst þegar verið var að skrá bókina Fögru Veröld eftir Tómas Guðmundsson frá 1946.

“Bókin kemur úr Eiríkssafni og meistarinn hefur lagt saurblaðið í bókinni undir þessa fallegu teikningu. Hann hefur merkt hana á ýmsa lund; Kjarval, Jóhannes Sveinsson og Giovanni sem er ítalska útgáfan á nafninu hans og sem hann notaði gjarnan eftir Ítalíuferðina sína,” sagði Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, forstöðumaður Bókasafns Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Nú er í gangi sýning á Kjarvalsstöðum sem heitir Kjarval – Mynd af heild. Þar getur að líta lítið málverk sem heitir Pegasus og stúlka og þar er myndin úr bókinni komin sem fullgert olíumálverk.

Dóra er þó á því að teikningin í bókinni sé fallegri. “Það er meira líf og meiri hreyfing í henni,” segir Dóra sem hefur ekki fengið verðmæti myndarinnar staðfest.

“Mér skilst að Kjarval hafi gjarnan gert teikningar sem þessar í bækur svo ég reikna ekki með að þetta sé mjög verðmæt mynd. En kannski tek ég þetta með mér einhvern tímann í gallerí og spyr að þessu fyrir forvitnis sakir,” sagði Dóra að lokum.

Eiríkssafn er bókasafn sr. Eiríks J. Eiríkssonar og Sigríðar Kristínar Jónsdóttur en þau hjónin gáfu Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi bókasafn sitt árið 1984. Safnið telur um 30.000 bækur og er margt dýrgripa í því, m.a. Guðbrandsbiblía frá 1584 og Þorláksbiblía. Elsta bókin í safninu er frá árinu 1550.

kjarval1_500527827.jpg
Kjarvalsmyndin á saurblaði bókarinnar Fagra veröld frá 1946. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinFróðleg og skemmtileg ungmennaráðstefna
Næsta greinVorboðarnir flykkjast til landsins