Einstök samvinna foreldra og bæjarins

Hveragerðisbær og foreldrafélag Grunnskólans í Hveragerði undirrituðu samning um samstarf í æskulýðs og forvarnarmálum í síðustu viku.

Samningnum er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda og foreldrafélagsins og tryggja börnum og unglingum öflugt æskulýðs og forvarnastarf. Þar er fjallað um aukið samstarf foreldra hvað varðar samræmingu útivistartíma og ennfremur ákvæði um umsjón félagsins með foreldrarölti á haustin og vorin.

Með samningum er ennfremur kveðið á um ákveðna þjónustu sem félagið mun inna af hendi svo sem skemmtun á öskudegi, foreldrafærninámskeið fyrir 1. og 7. bekk ásamt umsjón sem jólaföndursdegi foreldra og barna á aðventu.

Samningurinn gildir til þriggja ára og árlega fær félagið kr. 350.000,- í styrk frá Hveragerðisbæ.

Í máli stjórnarmanna kom fram að ekki þekktust dæmi um sambærilegan samning milli foreldrafélaga grunnskóla og bæjarfélags. „Í núverandi efnahagslegu árferði er lítill grundvöllur fyrir félagsgjöldum og því væri það mjög jákvætt að félagið geti haldið sinni starfsemi gangandi með stuðningi bæjarins.“

Fyrri greinSandvíkurskóli verði fræðasetur
Næsta grein210 milljóna garður í útboð í febrúar