Sunnudaginn 2. nóvember verður haldin fjölskylduvæn hrekkjavökuhátíð í Skaftholtsréttum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin en í fyrra var það mál manna að hún hefði heppnast gífurlega vel.
„Þetta kom þannig til að Hrönn Jónsdóttir, sem vinnur á skrifstofu sveitarfélagsins, datt í hug að heyra í mér og Eydísi Moon Guðmundsdóttur til þess að skipuleggja hrekkjavökuhátíð. Eydís er mikil áhugamanneskja um hrekkjavökuna og ég hef mikinn áhuga á að skipuleggja fjölskylduvæna viðburði. Svo við, þrjár ungar mæður í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, tókum okkur til og stofnuðum stjórn Skeiða- og Skelfingahrepps,“ segir Rakel Þórarinsdóttur, ein af aðstandendum hátíðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.
Fráleitt að missa fólk á Selfoss
„Okkur langaði að leggja áherslu á að krakkar gætu komið á einn stað með foreldrum eða forráðamönnum, til þess að taka þátt í grikk eða gott, og þar af leiðandi auðvelda foreldrum þá byrði að þurfa að keyra á milli sveitabæja þar sem jafnvel bara tvö eða þrjú heimili myndu taka þátt. Svo fannst okkur fráleitt að missa fólkið inn á Selfoss fyrir þetta, því við ættum alveg að geta gert eitthvað skemmtilegt fyrir okkar fólk hér heima,“ segir Rakel.

Gengið á milli dilka í stað húsa
Rakel segir að þau hafi einu sinni nýtt Skaftholtsréttir sem skautasvell og í kjölfarið hafi komið sú hugmynd að nýta dilkana á hrekkjavökunni. „Við komum saman inn í almenningnum, þar sem er varðeldur og þar inni geta krakkarnir gengið milli dilka og fengið nammi.“
„Til þess að þetta gæti orðið að veruleika þurftum við að virkja sveitunga okkar og auglýstum því að það væri hægt væri að panta dilk, skreyta hann að vild og bjóða upp á gotterí. Og til að krydda þetta þá ákváðum við að efna til skreytingarkeppni og veita verðlaun fyrir „hræðilegasta“ eða draugalegasta dilkinn.“
„Þetta er góð leið til þess að hrista fólk saman en við leggjum áherslu á að foreldrar eða forráðamenn séu með börnunum og unglingunum í þessu, hafi gaman saman og það er eitthvað fyrir alla þarna.“

Hrekkjavökurófur frá Stóru-Sandvík
í ár rétt, eins og í fyrra, skipuleggur stjórn Skeiða- og Skelfingahrepps föndurkvöld fyrir íbúa hreppsins. „Þá bjóðum við fjölskyldum að koma og skera út hrekkjavökurófur, svona til þess að íslenska þetta aðeins, í staðinn fyrir að vera með grasker. Hún Fjóla Signý frá Stóru-Sandvík hefur verið svo dásamleg að hjálpa okkur með það en Sandvíkurrófur eru bestu rófur í heimi. Þetta hefur heppnast ótrúlega vel og krakkarnir hafa haft mjög gaman af.“
„Í fyrra fengum við fullkomið veður, við auglýstum þetta bara í sveitinni okkar en fréttin flaug hratt í næstu sveitir og það komu miklu fleiri en við þorðum að vona. Gróflega skotið komu á bilinu 150-200 manns, svo það er óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið frábærar.“
„Allir eru mjög spenntir fyrir hátíðinni í ár og við höfum fengið bæði þakklæti og hvatningu frá sveitungum okkar fyrir að standa fyrir þessu. Þetta hefði aldrei gengið upp nema fyrir stuðning ýmissa einstaklinga og fyrirtækja sem gáfu vinnu og vörur í þetta.“

Allir velkomnir
Rakel segir að í grunninn verði hátíðin með svipuðu sniði ár hvert en þó verður ekki alltaf það sama í boði. „Í fyrra voru til dæmis tvö draugavölundarhús, grikk eða gott dilkar, norn að spá, kríladilkur fyrir yngri krakkana, kakó og sykurpúðar en þetta árið verða ekki draugahús, önnur en þau sem sjá um dilkana.“
„Björgunarsveitin okkar Sigurgeir ætlar að aðstoða okkur í bílastæðavörslunni. Það er vissara í myrkinu ef það verður aftur jafn mikil aðsókn og var í fyrra. Það er gott að fá aðstoð frá þeim svo að fólk komist betur leiðar sinnar inn og útaf svæðinu.“
„Við erum ótrúlega þakklátar fyrir að fá að standa að þessu og hvetjum alla áhugasama til að kíkja í Skaftholtsréttir á hrekkjavökuhátíðina. Hún er fyrir alla. Síðan skemmir það ekki fyrir að þetta er eina hrekkjavökuhátíð sinnar tegundar, þar sem hún er haldin í fjárréttum og fyrirkomulagið er bara svo skemmtilegt og þægilegt,“ segir Rakel að lokum.


