Einstök gjafavöruverslun á rafverkstæði

Árný Svavarsdóttir í versluninni á Hvolsvelli. Ljósmynd/Rakel Sif Ragnarsdóttir

Á Hvolsvelli leynist falleg verslun sem ekki fer mikið fyrir. Verslunin er staðsett á Rafverkstæði Ragnars en vörurnar eiga þó lítið skylt við raftæki.

„Við erum með alskonar lífstíls- og gjafavöru, ásamt því að vera með umboð fyrir Smith & Norland og erum því með heimilistæki frá þeim til sölu. Við erum svo alltaf með augun opin fyrir nýjum vörum eða birgjum svo það bætist í reglulega,“ segir Árný Svavarsdóttir, eigandi verslunarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Árný segir að staðsetning verslunarinnar – sem ber sama nafn og rafverkstæðið – sé tilkomin vegna þess að rafverkstæðið sé fyrirtæki þeirra hjóna og þau höfðu nóg pláss í húsnæðinu sem var þar fyrir.

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún hafi ákveðið að opna gjafavöruverslun á þessum stað segir Árný að hún hafði áður unnið í sambærilegri verslun á Hvolsvelli en sú verslun hafi lokað.

„Þar sem við höfðum húsnæði og mér fannst vanta svona verslun á svæðið, ákvað ég að láta slag standa og opna verslun sjálf.“

Árið 2008 festu þau hjónin kaup á húsnæðinu og fljótlega eftir það fóru þau að taka inn vörur.

„Viðtökurnar hafa alltaf verið mjög góðar en undanfarið höfum við verið að auglýsa okkur meira á samfélagsmiðlum og umferð aukist í takt við það. Fólk má endilega fylgja okkur undir Rafverkstæði Ragnars á Instagram og Facebook,“ segir Árný að lokum.

Ljósmynd/Rakel Sif Ragnarsdóttir
Ljósmynd/Rakel Sif Ragnarsdóttir
Fyrri greinMagnús Ingi í Árborg
Næsta greinSóttu slasaðan göngumann við Langjökul