„Einskonar félagsmiðstöð – og þannig vil ég hafa það“

„Mig hefur langað að gera þetta í mörg ár,“ segir Dagný Magnúsdóttir, eigandi listasmiðjunnar Hendur í höfn, en í dag opnar hún kaffihús að Unubakka 10-12 í Þorlákshöfn.

Síðustu tvo mánuði hefur verið unnið hörðum höndum að því að gera helming hússins að Unubakka 10-12 tilbúinn fyrir kaffihúsið. Hugmyndin er þó nokkru eldri. „Þetta var hugmyndin þegar ég byrjaði með þetta fyrir þremur árum, að opna kaffihús,“ segir Dagný. Útfærslan er að einhverju leyti fengin frá samskonar stöðum í Skandinavíu.

Dagný tekur á móti fjölmörgum hópum í sambandi við listasmiðjuna og vildi bæta við þá þjónustu. „Það er búið að standa mér svolítið fyrir þrifum að vera ekki með veitingasölu með vinnustofunni,“ segir Dagný.

Hún segir starfsemi sem þessa, opna vinnustofu og kaffihús, sé hvergi að finna á Íslandi. Mikið verður lagt upp úr að allt verði gert frá grunni. „Ég kaupi ekki sultur, pestó eða hummus – ég geri þetta allt sjálf,“ segir Dagný sem er búin að koma sér upp eldhúsaðstöðu á efri hæð hússins. Auk þess að boðið verður uppá kaffi og með því, verða í boði léttir réttir í hádeginu fimmtudaga og föstudaga.

„Hérna eru allir velkomnir og engin greinarmunur gerður á einum eða neinum. Hérna eru allir jafnir, það er sama hver það er,“ segir Dagný. „Þetta er einskonar félagsmiðstöð – og þannig vil ég hafa það.“

Fyrri greinSumar og vetur frusu saman
Næsta greinAfmælisveisla í Þorlákshöfn