„Eins og að fylgjast með spennandi handboltaleik“

Frá jólasöngstund í Sunnulækjarskóla, þar sem nemendurnir eru 708 talsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íbúar Selfossbæjar eru í fyrsta sinn orðnir fleiri en 8.000 og útlit er fyrir talsverða fjölgun til viðbótar á næstu vikum.

Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrúi, greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni í dag.

Áttaþúsund íbúa múrinn var rofinn í dag, Selfyssingar eru nú 8.003, en samtals eru íbúar Sveitarfélagsins Árborgar orðnir 9.486. Í Sandvíkurhreppi búa 298 manns, 563 á Eyrarbakka og 547 á Stokkseyri. Óstaðsettir í hús eru 75.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Selfyssingar verða fleiri en 8.000 og það er búist við enn meiri fjölgun á Selfossi á næstunni þar sem enn á eftir að flytja inn í margar nýjar íbúðir í bænum sem þegar er búið að selja,“ segir Tómas Ellert í samtali við sunnlenska.is en hann hefur fylgst vel með íbúafjöldanum að undanförnu.

„Já, ég hef verið að fylgjast með þessu undanfarið. Að fylgjast með íbúaþróuninni í Árborg er eins og að fylgjast með spennandi handboltaleik. Það er alltaf eitthvað að gerast daglega,“ sagði Tómas Ellert ennfremur.

Þann 5. janúar síðastliðinn rufu íbúar Árborgar 9.000 íbúa múrinn, þannig að þeim hefur fjölgað um tæplega 500 það sem af er árinu. 

Línurit sem Tómas Ellert útbjó yfir íbúaþróunina á Selfossi frá árinu 1998, þegar Sveitarfélagið Árborg var stofnað. Íbúum á Selfossi hefur fjölgað um 85% frá árinu 1998.
Fyrri greinAlmar Óli dúxaði í FSu
Næsta greinBifreið gjöreyðilagðist í eldi