„Eins og að hreinsa stærsta fjárhúsið“

Nýverið kom út ljósmyndabókin „Þingvellir – í og úr sjónmáli“ eða „In and out of sight at Þingvellir“ eins og hún heitir á ensku. Ljósmyndirnar í bókinni eiga þau Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason og um textann sá Harpa Rún Kristjánsdóttir frá Hólum við Heklurætur.

„Bókin er tvítyngd, bæði á íslensku og ensku, og er myndunum og textanum ætlað að draga fram þær hliðar Þingvalla sem ekki eru endilega alltaf efstar á baugi, ef svo má segja,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is

Aðspurð hvernig það hafi komið til að gefa út bók sem þessa, segir Harpa Rún að Sigrún og Pálmi beri þar alla ábyrgðina. „Þau voru byrjuð að taka myndir í þessa bók sem átti upphaflega að verða bara lítil ljósmyndabók. Þau höfðu lesið eitthvað af textum eftir mig og báðu mig um að skrifa fyrir þetta verkefni. Það gekk vel og allt heila klabbið hlóð utan á sig!“

Vissi ekkert um Þingvelli
Harpa Rún segir að bókarfæðingin hafi verið frekar löng. „Það eru að minnsta kosti tvö ár síðan fyrstu drög að bókinni voru tilbúin. Ég skrifaði meginþorrann af textanum árið 2015 og þau voru þá langt komin með að taka myndirnar. Þegar ég kom fyrst að verkefninu vissi ég nánast ekki neitt um Þingvelli, þannig að við tók allskonar grúsk.“

„Ég var allan tímann með það í maganum að til að geta skrifað um svæðið þyrfti ég að þekkja það mjög vel. Ég gerði það ekki þá og geri ekki enn. Á endanum varð textinn bara til jafnóðum því sem ég las og fór á staðinn. Samt er hann yfirborðsklór – ég veit ekki mikið um Þingvelli,“ segir Harpa sem er með meistarapróf í Almennri bókmenntafræði.

Ekki einhver túristabók
Að sögn Hörpu Rúnar er það alltaf mikið ferli að gefa út bók og það hafi gengið á ýmsu við gerð þessarar bókar. „Bókin átti í upphafi að vera lítil en fljótlega rann upp fyrir ljósmyndurunum að þau vildu gera Þingvöllum meiri og betri skil. Við vildum öll vanda til verka, en erum þegar upp er staðið nokkuð sátt með útkomuna.“

„Það halda margir að vegna þess að bókin er líka á ensku þá sé þetta aðallega túristabók. Ég lít samt ekki þannig á það og lagði mikla áherslu á að hafa textann á íslensku líka. Það hefði verið fáránlegt að gefa út bók um Þingvelli bara á ensku – sérstaklega árið 2018 á 100 ára fullveldisafmælinu,“ segir Harpa Rún.

„Með því að láta íslenskan og enskan texta standa hlið við hlið skapast líka tækifæri fyrir þá sem kunna hrafl í íslensku og vilja æfa sig. Ég veit um nokkra sem eru að æfa sig í íslensku sem hafa keypt bókina,“ segir Harpa Rún.

Textinn fangar það sem myndirnar gera ekki
Harpa Rún segir að bókin sé fyrir alla sem kunna að meta ljósmyndir og ljóðrænan texta. „Við höfðum það að markmiði að sýna það sem ekki sést, skapa nýja sýn á svæði sem allir þekkja. Myndirnar í bókinni eru teknar á öllum árstímum, bæði á daginn og að nóttu til, gjarnan á stöðum sem við erum ekki vön að sjá myndir af frá Þingvöllum.“

„Ég fór sömu leið með textann, reyndi að fanga það sem ekki er hægt að ná á mynd. Við erum svo vön að hafa okkur sjálf sem sjónarhornið og mælikvarðann en ég vildi reyna að setja mig í önnur spor, spor náttúrunnar, dýranna, kvennanna í gamla daga. Þetta er bók fyrir þig ef þig langar að skipta um sjónarhorn í smá stund,“ segir Harpa Rún.

Harpa Rún segir að bókin hafi fengið ótrúlega góðar viðtökur. „Í ferlinu voru nokkrar efasemdaraddir varðandi textann, hvort hann væri of skrýtinn. Ég hef ekki heyrt þær raddir eftir að bókin kom út – en bíð spennt eftir þeim. Sennilega segir enginn við mig að hún sé glötuð, en ég hef samt fengið hrós frá fólki sem er nógu ókunnugt til að vera hlutlaust.“

Í fyrsta skipti sem nafnið er á kilinum
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Harpa Rún gefur út bók en hún skrifaði í ljósmyndabókina On the road in Iceland ásamt ljósmyndaranum Grétu Guðjónsdóttur fyrir nokkrum árum. „Annars hef ég meira verið á bakvið tjöldin í bókaútgáfu, lesið yfir, skrifað formála og þess háttar. Þetta er fyrsta bókin þar sem nafnið mitt er á kilinum, en vonandi ekki sú síðasta,“ segir Harpa Rún.

Þegar Harpa Rún er spurð að því hvernig tilfinning það hafi verið að fá bókina í hendurnar segist hún hafa verið á miklum hlaupum þegar það gerðist. „Ég er alls ekki búin að átta mig á því enn þá að bókin sé tilbúin og komin út. Auk þess var ég orðin svo ægilega leið á textunum þegar hún fór loksins í prentun að ég hef ekki lesið þá aftur. Þetta er samt að síast inn og það er góð tilfinning, eins og alltaf þegar stóru verkefni er lokið. Svona eins og að hreinsa stærsta fjárhúsið eða klára heyskapinn.“

Þingvellir – í og úr sjónmáli eða In and out of sight at Þingvellir fæst í öllum betri bókabúðum, auk þess er hægt að nálgast árituð eintök hjá höfundunum sjálfum.

Úr bókinni:

Ólgandi hraunið hið innra
streymir út og storknar
þegar yfirborðið rifnar.

Ískaldar uppsprettur flæða
mola af þolinmæði
mark sitt í grjótið.

Angandi blómgresið
stingur kolli uppúr mosaþembu
sem hylur.

Moldin geymir
myrkur og orma
mat handa fuglum.

Gárur á vatnsfleti
vísbendingar
um líf sem við sjáum ekki.

Þetta er landið mitt, lífið mitt, skapað úr sama efni og ég.

Fyrri greinStofna samráðshóp um uppbyggingu í miðbænum
Næsta greinBranger sigraði á nýju brautarmeti