Einnig mygla í skólanum á Stokkseyri

BES á Stokkseyri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Myglu er einnig að finna í gamla húsnæði barnaskólans á Stokkseyri. Loftgæðarannsókn verkfræðistofunnar Eflu leiddi þetta í ljós.

Þetta kemur fram í bréfi sem skólastjórnendur sendu foreldrum og forráðamönnum nemenda BES í dag. Óskað var eftir rannsókninni í kjölfar niðurstaðna um myglu sem fannst í skólahúsnæðinu á Eyrarbakka fyrr í vetur.

Skólastjórnendur hafa ákveðið að loka gamla húsinu og hefjast handa við að finna bráðabirgðahúsnæði. Hingað til hefur tónmennta-, leiklistar- og heimilisfræðikennsla farið fram í húsnæðinu. Starfsemi frístundaheimilis Stjörnusteina hefur einnig verið þar, sem og starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Zelsíus. Í húsinu eru einnig geymslur og þvottaaðstaða fyrir skólann.

Starf frístundaheimilisins mun fara fram í nýja skólahúsnæðinu frá og með næstkomandi miðvikudegi og verður frístund lokuð á morgun vegna flutninganna.

Í tilkynningunni segir að skólastjórnendur og starfsfólk skólans vinni nú hörðum höndum að skipulagi skólastarfsins út frá breyttum aðstæðum.

 

Fyrri greinLögreglan rannsakar ofbeldismyndbönd barna á Selfossi
Næsta greinTælensk landsliðskona til liðs við Selfoss