Einn settur í akstursbann

Lögreglan á Selfossi stóð 27 ökumenn að hraðakstri í liðinni viku. Sá sem hraðast ók var á 155 km/klst hraða.

Þar var á ferð nítján ára gamall ökumaður við Ytri Mókeldu austan við Þingborg en þar er 90 km/klst hámarkshraði.

Pilturinn var hann ekki kominn með fullnaðar ökuskírteini og því var hann settur í akstursbann á grundvelli punkta. Hann á von á 140 þúsund króna sekt og tveggja mánaða sviptingu auk þriggja punkta í ökuferilsskrá. Þá þarf hann að sækja sérstakt námskeið hjá ökuskóla fyrir þá sem settir eru í akstursbann.

Fleiri voru á miklum hraða umfram leyfðan hámarkshraða, einn á 102 km/klst á brúnni yfir Ytri Rangá við Hellu en þar er 50 km/klst. Annar var á 121 km/klst hraða á 70 km/klst kafla á Suðurlandsvegi frá Lyngási að brekkubrún við Trésmiðjuna Rangá, skammt frá Hellu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar kemur einnig fram að einn var kærður fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og annar fyrir að aka undir áhrifum annarra lyfja en sá hafði tekið bifreið traustataki á bæ í uppsveitum Árnessýslu og var stöðvaður á leið þaðan. Sá þriðji var kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis.

Sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni og í einu þeirra var um minniháttar meiðsl að ræða.

Þrír voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti.

Sex tilkynningar bárust um lausagöngu hesta við fjölfarna vegi eða götur í umdæminu í liðinni viku.