Einn og yfirgefinn í ræktinni

Lífið er það sem gerist á meðan maður er upptekinn að gera aðrar áætlanir. Þetta sagði Bítillinn John Lennon eitt sinn og má segja að þetta eigi ágætlega við um síðustu mánuði í lífi Haraldar Einarssonar, alþingismanns frá Urriðafossi í Flóahreppi.

Fyrir hálfu ári voru það hans helstu áform að klára háskólanám og vonaðist hann til að fá starf á verkfræðistofu í sumar, ellegar ætlaði hann að vinna í sveitinni.

Haraldur er í viðtali í Sunnlenska fréttablaðinu í þessari viku og þar ber ýmislegt á góma.

Margir þekkja íþróttamanninn Harald miklu betur en þingmanninn. Hann hefur stundað frjálsar íþróttir að kappi og unnið til margra verðlauna síðustu ár. Reyndar er orðspor hans á þeim vettvang svo gott að Steingrímur J. Sigfússon hafði miklar áhyggjur af því að hann myndi bæta þingmannametið sitt í hálf maraþoni. Haraldur segir þó að Steingrímur geti verið rólegur því hann ætli ekki að reyna að bæta það. „Allavega ekki næstu tíu árin,“ segir hann.

Haraldur segist nýta sér líkamsrækt sem er í kjallara Alþingishússins og gerir svo nánast daglega. „Það er mjög þægilegt að geta stokkið úr þingsal í íþróttafötin, kveikt á sjónvarpinu og fylgst með umræðum í aðeins þægilegri stellingu en í stólnum,“ segir Haraldur sem viðurkennir þó að það séu ekki margir með honum þar. „Það má eiginlega segja að ég sé oftast einn og yfirgefinn þarna niðri,“ segir hann og hlær.

Harldur undirbýr sig nú fyrir Landsmót UMFÍ sem hefst á Selfossi fimmtudaginn 4. júlí. Hann ákvað að byrja að leggja stund á frjálsar þegar hann var 21 árs og var, að eigin sögn, þreyttur eftir skólaíþróttir. Árangurinn var ekki frábær til að byrja með, hins vegar var metnaðurinn mikill og hann hefur skilað sér í góðum árangri. „Það er bara svipað og hér á þinginu. Að trúa á verkefnin og setja sér markmið og vinna að þeim þá gengur það upp,“ segir spretthlauparinn sem hefur verið kallaður fljótasti þingmaður heims.

„Svo fullyrðir RÚV allavega og ekki ljúga þeir,“ segir hann léttur í bragði. „Annars eigum við eftir að kanna þetta í heimsmetabókinni. Það er allavega líklegt að ég sé fljótasti sitjandi þingmaðurinn en hvort ég sé sá fljótasti sem hefur sest á þing kemur í ljós.“

Sjá nánar opnuviðtal við Harald í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinStokkseyri á fjóra keppendur í kraftlyftingum
Næsta greinDavíð sjónarmun á undan Hafsteini