Einn milljarður króna í uppbyggingu ferðamannastaða á Suðurlandi

Starfsmenn Stokka og Steina vinna að uppsetningu göngubrúar í Gjánni í Þjórsárdal síðasta sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði í dag grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingar innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum. Gert er ráð fyrir um 2,8 milljarða króna framlagi til næstu þriggja ára og þar af fer rétt rúmlega einn milljarður króna í verkefni á Suðurlandi.

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi áætlun sem Alþingi samþykkti 2018. Verkefnaáætlanir eru gerðar til þriggja ára og eru uppfærðar á hverju ári. Ný verkefnaáætlun sem ráðherra kynnti í dag nær til áranna 2022-2024.

Stærstu verkefnin á Suðurlandi eru á Geysissvæðinu í Haukadal, í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og í Friðlandi að Fjallabaki.

Á Geysi í Haukadal fara 152,4 milljónir króna til framkvæmda á nýrri hringleið á Geysissvæðinu og er það stærsta staka verkefnið sem fékk úthlutun í dag og þá fær Skógræktin 6 milljónir króna til viðhalds og uppbyggingar göngleiða í Haukadalsskógi og tengingar við Geysissvæðið.

Haustkvöld við Þingvallavatn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í Þjóðgarðinum á Þingvöllum stendur til að bæta við bílastæðum og gera gönguleið norðan Öxarárfoss og Stekkjargjár auk þess sem skilti í þjóðgarðinum verða uppfærð og merkingum bætt við í Þinghelginni. Alls fara 171,5 milljónir króna í þessi verkefni en auk þess fara 34,1 milljón í uppbyggingarverkefni í Þingvallahrauni og 16,2 milljónir króna í merkingar í Þjóðgarðinum.

Tæpum 157,6 milljónum króna verður ráðstafað til fimm verkefna í Friðlandinu að Fjallabaki, en framundan er mikil innviðauppbygging í Landmannalaugum og á ýmsum svæðum þar í kring, svo sem við Rauðafoss og Grænahrygg.

Hafist verður handa við fjölda annarra verkefna á Suðurlandi í ár og næstu tvö ár, meðal annars við útsýnispall og steypta göngustíga við Gullfoss, yfirbyggingu minja þjóðveldisbæjarins á Stöng í Þjórsárdal, áframhaldandi uppbyggingu gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu og í Gjánni í Þjórsárdal og bættrar aðkomu á láglendinu við Skógafoss.

Mikill árangur náðst í að bæta innviði
„Landsáætlun um uppbyggingu innviða er verkfæri sem hefur sannað sig til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum um allt land,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Það er mikilvægt er að hlúa vel að náttúru og minjastöðum okkar, sem svo margir njóta að heimsækja. Áætlunin gefur fyrirsjáanleika og fjármagn til lengri tíma, en einnig svigrúm til að bregðast hratt og örugglega við óvæntu álagi vegna ferðamanna, eins og við höfum gert. Nú þegar við gefum verkefnaáætlunina út í fimmta sinn höldum við áfram vandaðri innviðauppbyggingu, sem ég veit að mun vernda viðkvæma náttúru og styðja við góða upplifun fólks á ferð sinni um landið.“

Guðlaugur Þór gerir grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða og náttúruverndar á ferðamannastöðum í dag. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinVirkilega góð liðsframmistaða
Næsta greinLögðu hald á 158 kannabisplöntur