„Einn mikilvægasti tengipunktur landsnetsins“

Vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar og tengingar nýrrar vélar hennar við flutningskerfið þurfti að stækka tengivirki Landsnets í Búrfelli og voru endurbæturnar á því vígðar formlega í dag.

Samhliða stækkuninni þurfti að endurnýja stjórnkerfi stöðvarinnar. Tengivirkið í Búrfelli er eitt stærsta og mikilvægasta tengivirki landsins og þurfti að ráðast í þessar breytingar með virkið í fullum rekstri. Framkvæmdin var því afar vandasöm og krafðist mikils undirbúnings, skipulags og aga. Uppsett afl nýrrar stöðvar er um 100 MW og tengist hún 220 kV tengivirki Landsnets í Búrfelli með um þriggja km löngum jarðstreng.

Tímaáætlun verkefnisins gekk vel eftir og verklok allra verkþátta voru samkvæmt áætlun. Kostnaðaráætlun verkefnisins var upp á 624,5 milljónir og verður heildarkostnaður undir þeirri áætlun.

„Þetta verkefni hefur gengið mjög vel, tengivirkið í Búrfelli er að verða tuttugu ára gamalt og tímabært að endurnýja stjórnbúnað þess. Verkefnið var mjög flókið en snjöll hönnun og frábært tæknifólk okkar gerði það að verkum að þetta var hægt án þess að taka virkið úr rekstri og án þess að truflanir yrðu á raforkuflutningi,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
„Tengivirkið í Búrfelli er einn mikilvægasti tengipunktur landsnetsins, þangað tengjast fimm 220 kV háspennulínur, sex vélar núverandi virkjunar ásamt tengingu við 66 kV flutningskerfi á Suðurlandi. Í gegnum stöðina flæða því á hverjum tíma rúmlega 400 MW. Fyrir okkur hjá Landsneti er það ánægulegt að verkefnið leiðir til betri nýtingar núverandi innviða og takmarkar áhrif á umhverfið. Þá erum við mjög ánægð með það að verkefnið stóðst áætlanir um kostnað og tímasetningar,“ segir Guðmundur ennfremur.
Fyrri greinFramboðslisti Miðflokksins í Árborg tilbúinn
Næsta greinSelfoss fékk skell á útivelli