Einn látinn og sjö alvarlega slasaðir

Einn er látinn eftir alvarlegt rútuslys sem varð á þjóðvegi 1 í Eldhrauni, skammt frá Hunkubökkum, um klukkan 11 í morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er vitað að sjö eru alvarlega slasaðir. Tveir farþegar festust undir rútunni og er nú unnið að því að losa þá. Aðrir farþegar rútunnar eru með minni áverka og einhverjir óslasaðir. Um fimmtíu farþegar voru í rútunni.

Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð á Kirkjubæjarklaustri. Viðbragðsaðilar koma frá Höfn í austri og Reykjavík í vestri en ljóst er að mikinn fjölda þarf til vinnu við slysið.

Samhæfingastöðin í Skógarhlíð mun stýra flutningi þeirra sem eru alvarlega slasaðir inn á sjúkrastofnanir eftir því sem við á.

TENGDAR FRÉTTIR:
Alvarlegt rútuslys vestan við Klaustur

Fyrri greinAlvarlegt rútuslys vestan við Klaustur
Næsta greinTólf fluttir með þyrlum á sjúkrahús