Smit í Vallaskóla – einn bekkur í sóttkví

Vallaskóli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Einn bekkur í 7. bekk Vallaskóla hefur verið settur í sóttkví ásamt umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa eftir að nemandi í bekknum greindist með COVID-19.

Guðbjartur Ólason, skólastjóri, fékk þær upplýsingar í gærkvöldi frá smitrakningateymi sóttvarnalæknis að nemandinn hefði greinst smitaður.

Að sögn Guðbjarts mætti umræddur nemandi ekki í skólann síðastliðinn mánudag og þriðjudag en mætti svo í fyrsta tíma miðvikudaginn 2. september.

„Umsjónarkennari og stuðningsfulltrúi sendu nemandann fljótlega heim vegna flensueinkenna. Nemandinn var í skólanum fyrir helgi, síðast föstudaginn 28. ágúst en einkenni komu fyrst fram um síðustu helgi. Nemandinn var einungis í samneyti við nokkra bekkjarfélaga í bekkjarstofu umræddan miðvikudagsmorgun, ásamt umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa,“ segir Guðbjartur í tilkynningu á vef skólans.

Nemendur í viðkomandi bekk, umsjónarkennari og stuðningsfulltrúi fara því í sóttkví frá og með deginum í gær, 3. september, í fjórtán daga. Aðrir þurfa ekki að sæta sóttkví sem stendur.

Haft var samband við öll heimili nemenda í viðkomandi bekk snemma í morgun og listi með nöfnum þeirra sem fara í sóttkví sendur á smitrakningarteymi sóttvarnalæknis. Hjúkrunarfræðingar í því teymi verða síðan í sambandi við alla hlutaðeigandi varðandi frekari viðbrögð og aðgerðir.

Guðbjartur segir að málið reynist erfitt fyrir alla þá sem því tengjast og biður hann alla í samfélagi skólans að halda ró sinni, sýna samstöðu og hluttekningu. „Við erum öll í þessu saman,“ segir Guðbjartur.

Fyrri greinSundlaugin Laugaskarði lokuð í vetur vegna framkvæmda
Næsta greinHeita góðu samstarfi vegna uppbyggingar menningarsalarins