Einn alvarlega slasaður eftir aftanákeyrslu í Kömbunum

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Einn var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús eftir árekstur tveggja sendibíla í Kömbunum síðdegis í dag.

Suðurlandsvegi var lokað til vesturs á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi en hann hefur nú verið opnaður aftur.

Tveir aðrir voru fluttir til aðhlynningar á slysadeild. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi var um aftanákeyrslu að ræða, þar sem önnur bifreiðin var kyrrstæð.

Talsverður viðbúnaður var vegna slyssins og voru tækjabílar Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði og Selfossi meðal annars kallaðir á vettvang.

Fyrri greinHellisheiði lokuð til vesturs á morgun
Næsta greinFéll af baki að Fjallabaki